top of page

 SAMSKIPTABOÐORÐIN

 Það var á köldum nóvemberdegi fyrir bráðum 20 árum síðan sem ég varð móðir í fyrsta sinn. Frá og með þeim degi upplifði ég sterkt mikil-vægasta og ábyrgðarmesta hlutverkið sem mér hefur verið falið í lífinu og mun gegna um ókomna tíð; móðurhlutverkið. Nú er ég móðir fimm barna á aldrinum 11-20 ára og hjúkrunarfræðingur á nýburagjörgæslu Barnaspítala Hringsins. Um langa hríð hafa samskipti fullorðinna við börn átt stóran sess í hjarta mínu, því samskipti eru grundvöllur tengsla og í gegnum samskipti eigum við möguleika á að byggja upp það sem áður var brotið. Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur er ég sjálf oft á tíðum aðalmeðferðartækið því hjúkrun felst að stærstum hluta í samskiptum, og sem fullorðinn einstaklingur í samfélagi okkar er ég fyrirmynd þeirra barna sem ég umgengst um hegðun, atferli og samskiptahætti. Ég ber sjálf meginábyrgðina á börnunum mínum, en ég og við öll berum líka samfélagslega ábyrgð á því að öll börn í samfélagi okkar búi við velferð og mannréttindi – það kemur skýrt fram í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna; það þarf sannarlega heilt þorp til að ala upp barn. Börnin eru framtíðin og það sem þau læra af sínum fyrirmyndum í dag, kenna þau afkomendum sínum á morgun. Þess vegna er mikilvægi þess að fræða fullorðna sem vinna með og/eða umgangast börn um uppbyggjandi og árangursrík samskipti og framkomu ómetanlegt.

Í lífi, starfi og námi hef ég margoft orðið vitni að uppbyggjandi samskiptum fullorðinna við börn. En ég hef líka margoft orðið vitni að niðurbrjótandi samskiptum fullorðinna við börn og þeim afdrífaríku afleiðingum sem þau geta haft. Það er sagt að til að breyta heiminum verði maður að byrja á sjálfum sér, og það var í hjúkrunarfræðinámi mínu sem ég vaknaði til vitundar um þá möguleika og verkfæri sem ég bý yfir sem hjúkrunarfræðingur og móðir til að gera fullorðna samferðamenn mína upplýstari um eðli og afleiðingar uppbyggjandi og nærandi samskipta við börn. Og þannið urðu til og þróuðust Samskiptaboðorðin sem hafa að markmiði að gera okkur, fullorðnum og myndugum einstaklingum, grein fyrir þeirri ábyrgð sem berum gagnvart öllum börnum sem við umgöngumst. Það kemur einmitt fram í bæklingi Samskiptaboðorðanna að það sé farsælla að hver einstaklingur í samfélagi geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og þeim djúpstæðu áhrifum sem breytni hans hefur, í stað þess að ætlast til stórvægilegra, samfélagslegra breytinga. 

 

Við mótun og þróun Samskiptaboðorðanna studdist ég við fræðileg efni sem tengjast samskiptum og framkomu fullorðinna við börn og hafði auk þess til hliðsjónar sígildar kenningar leiðandi uppeldisaðferða sem Baumrind setti fram árið 1971. En þær fela meðal annars í sér að sýna börnum mikla hlýju, setja þeim skýr mörk, hvetja börnin áfram, taka vel í hugmyndir þeirra og útskýra vel fyrir barninu þegar þörf krefur. Þessi uppeldisaðferð leiðir til þess að börnin verða virk og þroskuð, sjálfstæð og sjálfsöguð, hafa trú á sjálfum sér og verða hamingjusöm. Samskiptaboðorðin skipta öll máli í samskiptum fullorðinna við börn, og eru gildin virðing, einlægni, hluttekning, umhyggja og trúnaður lögð til grundvallar Samskiptaboðorðunum sem eru sex:

Horfa- náðu blíðlegu augnsambandi, sem skapar traust, barninu er sýndur áhugi og er upphaf góðra tjáskipta.

Heilsa

- einbeittu þér að barninu og brostu með augunum. Við það eflist sjálfstraust barnsins, það upplifir að tilvera þess skiptir máli og finnur fyrir öryggiskennd.

Hlusta

- á og túlka skilaboðin sem barnið sendir; sjálfsvirðing og sjálfsþekking barnsins eflist og það lærir að bera virðingu fyrir öðrum.

Hljóma

- talaðu með hlýlegum tón; það eykur sjálfsvirðingu og vellíðan barns.

Hrósa

- fyrir jákvæða hegðun og framkomu; það eflir sjálfstraust barnsins um leið og líkurnar á áframhaldandi jákvæðri hegðun og framkomu aukast.

Hjálpa

- vertu til staðar þegar barnið þarfnast þín; það leiðir til uppbyggjandi hjálparsambands sem grundvallast á umhyggju, gagnkvæmu trausti og öryggi.

Með því að setja upp á aðgengilegan og auðskiljanlegan hátt í hverju uppbyggjandi samskipti við börn felast er ég viss um að almenn þekking fullorðinna á því hvað samskipti eru mikilvæg fyrir farsæld og vellíðan barna eflist. Hér á Íslandi eigum við máltæki sem segir að það læri börnin sem fyrir þeim er haft, og er Samskiptaboðorðunum ætlað að gera öllum fullorðnum í samfélagi grein fyrir því að þó meginábyrgðin á uppeldi barna liggi á herðum foreldra þeirra, berum við líka sameiginlega ábyrgð - börnin í samfélagi okkar eiga að koma okkur við. Í því sambandi er ég viss um að ef þú, lesandi góður hugsar tilbaka til æskuáranna áttu minningu um einhvern fullorðinn, sem er þér eftirminnilegur sakir þess að hann eða hún átti við þig uppbyggileg og eflandi samskipi. Nú erum við orðin fullorðin, nú erum við þessar fyrirmyndir. Hvernig fyrirmyndir viljum við vera fyrir börnin okkar og börnin sem við umgöngumst? Samskiptaboðorðunum er ætlað að veita leiðsögn og vera áminning um að tileinka okkur uppbyggjandi samskiptahátt við börnin sem við umgöngumst - því það skiptir máli, samskipti hvers og eins okkar skipta máli.

 

Baumrind, D. (1971). Current patterns of parental authority. Developmental Psychology Monograph, 4(1), 1-103.

 
 
 
 
 


 


 
  
 
 

 
 


 


 

 

 

 
 
FORSJÁLNI OG FORSJÁ ​

Nú er árstími tímamóta. Margs konar fræðingar útskrifast úr háskóla, stúdentar úr framhaldsskóla og unglingar úr grunnskóla. Allir standa á tímamótum; þeir vita hvað er að baki en minna um það sem fram undan er. Undanfarnar vikur hef ég farið yfir snúinn ákvörðunarferil með 16 ára dætrum mínum um val á framhaldsskóla. Ég lagði mig fram um að þær tækju sjálfstæða ákvörðun. Sýndi þeim fram á kosti og galla skólanna sem valið stóð á milli, fór með þeim í heimsóknir í skólana og gætti þess umfram allt að segja þeim ekki mína skoðun. Ég hélt að með því væri ég að fara eftir einhverjum óskráðum reglum um hvernig kenna eigi unglingum að taka sjálfstæða ákvörðun. Á elleftu stundu áttaði ég mig á að allt ákvörðunarferlið hafði ég ekki farið eftir þriðja Samskiptaboðorðinu: Hlusta. Ég hlustaði ekki á þær, veitti þeim ekki óskipta athygli og setti mig ekki raunverulega í þeirra spor – sýndi þeim ekki þá samkennd sem þær kölluðu eftir. En þegar ég svo fór raunverulega að hlusta á þær, gerði ég mér grein fyrir því að þó skoðanir annarra skipti þær miklu máli, eru það skoðanir mínar sem vega þyngst. Þær vita að ég þekki þær best, þær treysta mér og trúa því að ég muni vel fyrir þeim sjá. Þetta er gríðarleg ábyrgð. Þess vegna er mikilvægt að sýna fyrirhyggju, sjá fyrir afleiðingar stórra ákvarðana og gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem felst í því að vera myndugt foreldri. 

Að sýna fyrirhyggju er góður eiginleiki. Gera sér grein fyrir því sem framtíðin ber hugsanlega í skauti sér án þess að vita raunverulega nokkuð um það, en vera samt reiðubúin til að takast hana á hendur. Þegar barn er í vændum fyllast náttborð verðandi foreldra af bókum um meðgöngu og fæðingu. Blogg og vefsíður eru lesnar til að fræðast um þessa reynslu sem fram undan er og talað við reynslubolta, en þrátt fyrir að þeir geti auðveldlega lýst upplifuninni og reynslunni geta hinir óreyndari ómögulega sett sig nákvæmlega í þeirra spor. Því hver barnsfæðing er einstök og hvert barn einstakur ávöxtur einstakra foreldra, en með því að afla sér þekkingar sýna verðandi foreldrar forsjálni áður en forsjá ófædda barnsins verður raunveruleg.

 Á sama hátt ber foreldrum að sýna forsjálni í uppeldi barna sinna. Auk þess að bera skilyrðislausan kærleika til barnanna sýna foreldrarnir mikilvægustu fyrirhyggjuna með eigin hegðun og framkomu. Við erum sjálf gangandi og talandi gagnvirk kennslubók fyrir börnin okkar – það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ef börnin alast upp við neikvætt og niðrandi tal foreldranna um samferðamenn sína, tileinka þau sér sömu hegðun. Þó birtingarmynd eineltis sé ekki sú sama meðal barna og fullorðinna, endurspegla samskipti fullorðinna samskipti barnanna. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir hlutverki sínu sem fyrirmynda; að foreldrar sýni forsjálni með framkomu sinni gagnvart bæði sínum börnum og annarra.

Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir dætur mínar. En ég óska þeim þeirrar hamingju og farsældar sem fæst með því að vera sjálfstæður myndugur einstaklingur í samfélaginu okkar. Ef ég tileinka mér Samskiptaboðorðin og hlusta á þær með virkri hlustun; sérstaklega þegar þær standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, eflist sjálfsþekking þeirra og um leið sjálfstæði. Til að vera meðvituð um þetta þarf ég að afla mér þekkingar, vera reiðubúin að takast á við þær aðstæður sem foreldrahlutverkið býður mér uppá og gera mér grein fyrir því að ég er fyrirmynd. Höfum því í huga að forsjá barna er vel fyrir komið meðal foreldra sem tileinka sér forsjálni við uppeldi barnanna sinna.

 

 

  
 


 


 
  
 
 

 
 


 


 

 

 

bottom of page