top of page

Hugmyndin að Samskiptaboðorðunum varð til í námi mínu við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, en samskipti, samskiptahættir og áhrif þeirra á velgengni og líðan hafa verið mér hugleikin um langa hríð. Ástæðan er meðal annars sú að hver og einn einstaklingur er fyrirmynd og getur með framkomu sinni og samskiptahætti haft áhrif á líðan samferðamanna sinna. Jafnframt benti Bowlby (1969) á fyrir margt löngu að samskipti eru grundvöllur tengsla og í gegnum samskipti eigum við möguleika á að byggja upp það sem áður var brotið og gera góð tengsl sterkari. Það er til að mynda í gegnum samskipti barna við fullorðna sem samskiptafærni þeirra mótast og um leið persónuleiki, því þar læra börnin að setja sig í spor annarra, treysta og bera virðingu fyrir öðrum og sýna öðrum tillitssemi. Því má segja að börn læri sína grundvallarlífsleikni í gegnum samskipti sín við fullorðna. Samskipti eru mikilvægur þáttur vellíðanar og velgengni þegna hvers samfélags, og því eru Samskiptaboðorðin mitt samfélagslega innlegg sem hafa að markmiði að efla almenna þekkingu á uppbyggjandi, eflandi og nærandi samskiptum.
 

Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur ber mér að sýna gott fordæmi og vera meðvituð um þann samskiptahátt sem ég beiti því hjúkrun felst að stærstum hluta í samskiptum (Peplau, 1952; RNAO, 2007; Sigríður Halldórsdóttir, 2003a, 2003b). Sem fullorðinn einstaklingur í samfélagi okkar er ég einnig fyrirmynd samferðamanna minna um hegðun, atferli og samskiptahætti. Þó ég beri til að mynda sjálf meginábyrgðina á börnunum mínum ber ég líka samfélagslega ábyrgð á því að öll börn í samfélaginu búi við velferð og mannréttindi – það kemur skýrt fram í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
 

Það er sagt að til að breyta heiminum verði maður að byrja á sjálfum sér og það er tilgangur Samskiptaboðorðanna; að hvert og eitt okkar í samfélaginu geri sér grein fyrir ábyrgð sinni gagnvart öllum sem við umgöngumst. Það er nefnilega farsælla að hver einstaklingur í samfélaginu geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og þeim djúpstæðu áhrifum sem breytni hans hefur, í stað þess að ætlast til stórvægilegra, samfélagslegra breytinga (Vilhjálmur Árnason, 2010). Með það í huga er markmið mitt með Samskiptaboðorðunum að efla þekkingu hvers einstaklings í samfélagi á eðli uppbyggjandi, eflandi og nærandi samskipta við alla samferðamenn sína.
 

Verkefnið hlaut styrk frá Forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar árið 2011.

bottom of page