


Fyrir hvað verður þín minnst?
5. febrúar 2021
Maðurinn minn og ég fórum í bíltúr einn laugardag í janúar. Á leiðinni vildi hann leyfa mér að hlusta á lag með Peter Gabriel; „Þetta er af plötunni hans Scratch my back, frábær plata. Ég er alltaf að finna nýja gullmola á henni.“ Ég, annars hugar: „Já einmitt, gaman“, en hugsaði með mér um leið að það væri alveg hreint stórmerkilegt að hann skyldi mjög oft, sérstaklega ef honum líður vel, leyfa mér að hlusta á lag með Peter Gabriel. Og svo vissi ég líka hvað kæmi næst: „Ég er einmitt búinn að fylgjast með honum síðan við vorum í Real World stúdíóinu hans í Bath þarna níutíuogeitthvað. Var ég búinn að segja þér frá þessum stað? Magnaður alveg! Stúdíóið er í gamalli myllu og það rennur lækur undir húsinu ...“ og svo hélt hann áfram að segja mér, sennilega í hundraðasta skiptið, söguna af því þegar hann fór með vinum sínum í upptökuferðalagið mikla. En ég fór að velta fyrir mér hvort Peter Gabriel viti um þennan ríflega fimmtuga Íslending, sem minnist hans þegar lífið er gott. Ástæðan fyrir því að einmitt þetta tímabil í lífinu situr í minninu er þó líklega ekki Peter Gabriel. Miklu heldur samskiptin og samveran við vinina í stúdíóinu.
Fyrir nokkru rakst ég á bréf sem ég ritaði ömmu minni eftir að hafa dvalið hjá henni í nokkra daga árið 1982, þá tíu ára gömul. Í bréfinu skrifa ég meðal annars:
20. maí 1982
Elsku Amma mín!
Ég þakka þér fyrir síðast. Mér fannst svo gaman hjá þér um páskana að ég græt mig oft í svefn á kvöldin. Það var alltaf svo skemmtilegt þegar við fórum í strætó og svo varst þú alltaf svo góð við mig.
Nú tæpum fjörutíu árum síðar hefur amma dvalið meira og minna í einangrun á heimili sínu, nýlegu hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu. Hún er komin hátt á tíræðisaldur, hefur lifað langa ævi sem hvorki hefur verið án þjáningar né gleði. Ekki frekar en ævi svosem nokkurs, ef út í það er farið. Viðbrögð okkar við hvorutveggja segja hins vegar allt um þá manneskju sem við höfum að geyma. Þegar litið er yfir ævina þá birtast oft fyrirferðamiklir atburðir sem við álítum okkar verða minnst fyrir þegar dvöl okkar hér lýkur. Til dæmis verður einhvers minnst fyrir að hafa náð árangri í vísindum og annars fyrir að hafa brotist til metorða þrátt fyrir mikinn mótvind. Annarra verður minnst fyrir að vinna nóbelsverðlaun, klífa hæsta fjall heims eða flytja frumsamið tilfinningaþrungið ljóð við innsetningu forseta. Svo eru þeir sem verður minnst fyrir að upphefja sjálfa sig á kostnað annarra, ráðast á þá sem minna mega sín, beita ofbeldi gagnvart valdhöfum sem þeim líkar ekki, fara með falsaðar fréttir í skjóli embættis síns, auðs eða valds. Þeirra verður minnst fyrir að hafa vakið upp tilfinningar um ótta, reiði, sorg.
Dagarnir hjá ömmu fyrir næstum fjörutíu árum voru sveipaðir öryggi, hlýju og kærleika. Þeir lögðu grunninn að tengslum okkar ömmu og vörðuðu tengslin sem ég hef skapað við mitt fólk. Peter Gabriel vekur upp góðar kenndir hjá manninum mínum sem gott er að minnast. Líklega þætti Peter Gabriel það nú bara harla gott, ef hann vissi af því – sem hann gerir ekki. Ekki frekar en ég eða þú höfum hugmynd um hvaða áhrif við höfum á líf annarra – fyrir hvað okkar verður minnst.
