top of page

Virðing er fyrsta hjálp

10. október 2016

Virðing er fyrsta hjálp eru einkunnarorð Alþjóða geðheilbrigðisdagsins, 10.október, og er ástæða þess að við erum hér saman komin í dag. Til að vekja athygli á geðheilsu og tala saman um að það að búa við geðheilsu er jafnsjálfsagt og að búa við annarsskonar heilsu. Eða er það ekki svo?

“Veistu það Aðalbjörg það er bara svo erfitt að líða svona illa”, sagði dvalargestur Heilsustofnunar við mig um daginn. Viðkomandi hafði misst trúna á sjálfan sig, vissi ekki hvert hlutverk hans væri í tilverunni – hvort hann hefði í raun eitthvað hlutverk – eða hvort það væri rými fyrir hann í samfélaginu. Stöðugt fékk hann þau skilaboð, bæði beint og óbeint, að ekki væri rými fyrir hann. Hann væri vesen. Og mitt í öllu þessu þá vissi hann ekki lengur hver hann var.

 

Ef við hefðum það viðhorf að allir samferðamenn okkar sem ekki ganga hina beinu braut sem við sem samfélag höfum ákveðið að sé sú eina rétta, séu vesen, þá erum við á rangri leið. Því hver erum við að segja að einhver sé heilbrigðari en annar, að einhver eigi frekar skilið en annar að njóta mestu lífsgæða?

 

Orðið geðheilsa vísar til tilfinningalegrar vellíðanar, að búa við næg lífsgæði að eigin mati og að geta notið sín. Horfið nú aðeins inn á við og spyrjið ykkur þessarar spurningar: Líður mér vel, bý ég við næg lífsgæði og er ég að njóta mín í lífinu?

 

Geðheilsa á nefnilega við um okkur öll. Líkt og dýrmætur vinur minn og samstarfsmaður sagði við mig: Hugtakið geðheilsa er svo fjölþætt og umfangsmikið. Það snýr að okkur öllum, þar er enginn undanskilinn og við eigum öll reynslubanka. Umræðan á ekki að byrja að snúa að manni þegar veikindi fara að herja á. Hún á að snúa að okkur öllum, alltaf, því það er einmitt svo heilbrigt.

 

Við höfum nefnilega öll staðið á þeim stað í lífinu þar sem við búum ekki við tilfinningalega vellíðan, þar sem við búum, að eigin mati, ekki við næg lífsgæði og þar sem við upplifum ekki að við séum að njóta okkar. Svo koma jafnvel dagar eða tímabil þar sem okkur líður svo illa að við þurfum að leita okkur hjálpar fagaðila innan geðheilbrigðiskerfisins, sem liðsinna okkur með úrræðum sem þau kunna svo vel; með lyfjum, allskonar góðum og gagnreyndum samtalsmeðferðum og stuðningi við að feta okkur aftur inn á braut tilfinningalegrar vellíðanar og nægra lífsgæða.

Hvar svo sem við erum stödd einmitt í dag, þá er það reynslan okkar af lífinu sem gerir okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag.

 

Sjálf bý ég að margskonar reynslu sem leiddu til þess að mér leið ekki vel tilfinningalega og ég naut mín ekki. Í bókinni minni Samskiptaboðorðin segi ég meðal annars frá afleiðingum kynferðisofbeldis sem ég varð fyrir. Og nú gríp ég aðeins niður á bls. 85 í bókinni:

-

Rússneski rithöfundurinn Aleksandr Solzhenitsyn sagði að línan sem skilur að góðmennsku og illsku liggi í gegnum hjarta hverrar manneskju. Ég er viss um að maðurinn sem beitti mig ofbeldi var ekki vond manneskja. Hjarta hans var samt af ástæðum sem ég þekki ekki uppfullt af illsku, sem gerði honum kleift að gera það sem hann gerði. Í hjarta hans lá sú fullvissa að hann gæti beitt ofbeldi og þess vegna gerði hann það. Ég get ekki fundið aðra skýringu.

Skömmin og fyrlrlitningin sem ég fann fyrir hefur oft látið á sér kræla síðan og það hefur tekið mig mörg ár að skilja og trúa að skömmin er ekki mín. Skömmin er hans sem beitti mig ofbeldinu og alls þess sem gerði að verkum að hann gerði það.

Þegar mörk mín voru vanvirt var það líkt og mér hefði verið ýtt ofan í holu og með tímanum fór ég að trúa að best væri að vera þar. Það væri hvort eð er ekki rými í veröldinni fyrir manneskjur eins og mig. Um leið varð ég minn helsti óvinur sem birtist í því að ég bar ekki virðingu fyrir sjálfri mér. Það litaði samskipti mín við aðra, þannig að lengi vel átti ég erfitt með að standa með sjálfri mér vegna þess að þörfin fyrir að láta öðrum líka vel við mig var öllu öðru yfirsterkari.

-

Samskipti okkar við annað fólk móta okkur. Hafa áhrif á líðan okkar og viðhorf til okkar sjálfra og þeirra sem við umgöngumst. Þessi reynsla mín af kynferðisofbeldi ásamt einelti í æsku leiddi til þess að ég skammaðist mín fyrir sjálfa mig. Og ég áttaði mig svo einlæglega á því þegar ég allt í einu stóð frammi fyrir aðstæðum sem fullorðin kona, sem ég brást við á sama hátt og ég gerði þegar ég var barn og unglingur. Reynslan okkar býr nefnilega með okkur ævina á enda, við erum alltaf að dragnast með okkur sjálf hvert sem lífið leiðir okkur, líkt og ég ætla að lesa nú fyrir ykkur af bls.147 í bókinni:

-

Eina vakt á Vökudeildinni starfaði ég með hjúkrunarfræðingi sem ég fann að kunni ekki við mig. Hún yrti helst ekki á mig – nema til að segja mér til eða spyrja hvort ég væri “nokkuð” búin að þessu eða hinu. Henni fannst líka mikilvægt að koma þeim skilaboðum til mín að ég væri lægra sett en hún; ég væri sjúkraliðinn en hún hjúkrunarfræðingurinn.

Ég svaraði henni yfirleitt engu; það var eins og orðin stæðu föst í hálsinum á mér og ég einbeitti mér aðeins að litlu krílunum sem mér var falið að annast. Ég þakkaði mínum sæla fyrir að það voru fáir foreldrar á deildinni því jafn næmir og foreldrar veikra barna eru á ástandið í kringum sig, þá hefðu þeir vafalaust fundið fyrir ójafnvæginu í samskiptum okkar tveggja.

Það var mikið að gera þennan morgun og deildin yfirfull. Því til viðbótar birtist hersing lækna inni á deildinni í þeim tilgangi að kynna sér einn sjúkling. Þar sem læknarnir stóðu í kös fyrir framan hitakassa sjúklingsins tók hjúkrunarfræðingurinn sér stöðu við hliðina á mér við annan hitakassa. Hún byrjaði að lesa yfir mér og gætti þess að tala nægilega hátt: “Það er óþolandi þegar sjúkraliðar taka svona sjálfstæðar ákvarðanir eins og þú ert að gera. Veistu ekki að þú þarft að bera allt undir MIG? ÉG er hjúkrunarfræðingurinn – ekki þú og þar af leiðandi þarf ég að samþykkja þínar tillögur?!”

Framhleypni mín fólst í því að skipta um lín hjá barni sem var búið að pissa um allan hitakassann sinn. Þögn sló á læknahópinn í smástund, þeir horfðu á okkur til skiptis en héldu svo áfram sínu tali.

Ég fann að ég varð að komast afsíðis og fór á eina staðinn á flestum vinnustöðum þar sem hægt er að læsa að sér – á snyrtinguna. Ég var bæði dofin og ringluð, hafði aldrei fundið til þess að ég væri minni fagmanneskja vegna þess að ég væri sjúkraliði. Þvert á móti var ég afar stolt af starfsheitinu mínu enda hafði ég farið nokkuð lengri leið að því en margur annar.

Það sem ég skildi aftur á móti ekki var af hverju ég svaraði henni ekki. Þar sem ég sat inni á þessari litlu snyrtingu rifjaðist það upp fyrir mér að nákvæmlega svona hafði mér liðið oft áður: Meðal annars þegar vinsæla stúlkan á Vopnafirði sagði mig vera eins og egg og allir hlógu og tóku undir. Þá sagði ég heldur ekkert og hljóp bara heim. Það kom mér á óvart að ég, 34 ára gömul konan, skyldi finna til sömu tilfinninga og 14 ára stúlkan ég: Skömm og hugleysi.

-

Erfið og sár reynsla sem við verðum fyrir fær okkur til að líða illa tilfinningalega og kemur í veg fyrir að við njótum okkar. Ef við hlúum ekki að okkur, horfumst ekki í augu við reynsluna og tökum ekki utan um okkur sjálf og elskum okkur þrátt fyrir og vegna reynslunnar, þá vökvum við fræ tilfinningar um skömm innra með okkur. Og skömmin er ekkert annað en sú yfirmáta vonda vanlíðanartilfinning um að vera ekki nógu góð og að vera ekki elskuverð sem gera að verkum að við eigum erfitt með að eiga í nánum og nærandi tengslum.  Okkur finnst við nefnilega ekki eiga þau skilið. Skömmin segir okkur að við séum ekki þess verð að á okkur sé hlustað eða að einhver vilji eiga í nánum tengslum við okkur. Okkur finnst við vera vesen. Og þannig dafnar skömmin best; þegar nánd og tengsl skortir.

 

Ég var á þessum stað sjálf. En þegar ég gaf mér tíma til að annast um sjálfa mig – að sýna sjálfri mér samlíðan þá tóku góðir hlutir að gerast. Ég tók utan um unglinginn Öddu sem varð fyrir kynferðisofbeldi, tók utan um litlu Öddu sem var lögð í einelti og fullorðnu Öddu sem hafði alið með sér skömm á sjálfri sér til að lifa af. Ég fór að gefa af mér, valdi mér starf sem hjúkrunarfræðingur, sem fól í sér að byggja upp fólk – vitandi það að ég yrði að gæta þess að byggja sjálfa mig upp fyrst. Og ég eignaðist mann sem krafði mig um svör þegar ég vildi helst þegja hlutina í hel. Um leið og nánustu samskiptin sem við eigum í eru þau erfiðustu, þá geta þau gert að verkum að sjálfsvirðing okkar eykst samhliða því sem skömmin minnkar. Þegar ég loks gaf mér tíma til að sjá styrkleikana mína og horfast í augu við veikleikana, elska sjálfa mig eins og ég er bæði vegna og þrátt fyrir reynsluna, þá fann ég að ég er elskuverð, ég er nóg eins og ég er.

 

Til að hlúa að okkur sjálfum og búa við góða geðheilsu, þá þurfum við að gera fimm hluti:

  • Sofa nóg

  • Borða reglulega

  • Hreyfa okkur reglulega – helst eitthvað á hverjum degi

  • Eiga í nærandi samskiptum við aðra

  • Gefa okkur tíma til að hlusta á okkur sjálf

Sjálfri hefur mér reynst vel að taka mér hlé með aðferðum núvitundar – jafnvel nokkrum sinnum á dag – bara í örfáar mínútur í senn og beina sjónum beinlínis inn á við. Og núna skulum við gera einmitt það saman.

-

Núvitund hefur ekki síst hjálpað mér vegna þess að hún kennir mér að taka aðstæðum eins og þær eru á hverjum tíma með æðruleysi.

 

Þegar við búum ekki við góða geðheilsu, þá þurfum við hvert á öðru að halda, mér og þér. Við þurfum á því að halda að komið sé fram við okkur af virðingu, nærgætni, góðmennsku og skilningi – í því felst hversdagshjúkrun sem við getum og eigum öll að sinna. Virðing er sannarlega fyrsta hjálp.

 

Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur á Heilsustofnun, í hlutverki mínu sem eiginkona, sem móðir, sem samstarfsmaður, sem deildarstjóri, sem vinkona, sem dóttir, sem systir og sem manneskja, þá er það að hlusta á aðra af einlægni og taka utan um tilfinningar fólks og að hjálpa þeim að sjá lausnir þegar engar virðast sjáanlegar það mikilvægasta sem ég geri. Að vera með fólki, hlusta á orðin sem eru sögð og ekki síst þau sem ekki heyrast. Að hjálpa fólki, sem hefur misst sjónar á lífshlutverkinu, að finna lífi sínu farveg.

En ég þarf fyrst að byrja á því að hlúa að mér. Og nú bið ég ykkur um að gefa ykkur tíma til að annast um ykkur sjálf, svo þið getið annast um aðra.

Guð gefi ykkur góðan dag, auðugan af góðum samskiptum

<3 Virðing <3

Samstaða þeirra sem voru einu sinni Litlar manneskjur

 

16. apríl 2016

 

Það er langt síðan ég hef séð jafnmikla samstöðu á veggnum mínum á Facebook og undanfarna daga. Samstaðan felst í því að allt í einu hafa hér um bil allir vinir mínir skipt um forsíðumynd hjá sér í tilefni Barnamenningarhátíðar 2016. Í stað hetjulegra forsíðamynda af sjálfum sér uppi á fjöllum, í sínu fínasta árshátíðarpússi eða með dreyminn svip í fjarlægu landi, þá birtast nú myndir af litlum manneskjum í vöggu, að borða, að skæla, að fara í skólann í fyrsta sinn, í sparifötum á jólunum, að hlæja í fangi ömmu og afa, að borða snúð, að sitja uppstillt í sófa, að vera brosandi með fléttur eða sitja í mjúku grasi með stóra bróður á heitum sumardegi.

Við fyllumst ljúfsárri hlýju þegar við sjáum þessar myndir, sem kveikja jafnmargar og ólíkar æskuminningar eins og við erum mörg. Kannski vakna óuppgerðar tilfinningar, sársauki, óöryggi og vanlíðan. Eða öryggi, skjól og kærleikur. Hvernig sem því er háttað, þá förum við ósjálfrátt að hugsa til okkar þegar við vorum lítil og tökum utanum þessar litlu manneskjur sem voru kannski oft óttaslegnar við þessa stóru veröld.

Ég setti inn mynd af Litlu-mér þar sem ég sat í íslensku roki og sól á kletti á árbakka, brosandi út að eyrum. Minningin sem myndin vakti með mér var þessi:

Litla-ég á ferðalagi með foreldrum mínum þegar hamingjan vitjaði mín á sama andartaki og ég brosti framan í framtíðina og fólkið sem elskaði mig umfram allt.  

Á sama tíma og við minnumst okkar þá hugsum við um hve gott það var að vita ekki þá allt sem ætti eftir að eiga sér stað. Við sáum þó öll fyrir okkur framtíð sem var lituð af þeim veruleika sem við bjuggum í og af þeim fyrirmyndum sem við höfðum; kennurum, konunni í búðinni, ömmu, mömmu, pabba, stóru frænku eða frænda.

Nákvæmlega núna erum við þessar fyrirmyndir fyrir litla fólk dagsins í dag.  

Samstaðan á BabyFacebook er svo sterk vegna þess að við höfum öll verið litlar manneskjur og þess vegna öll verið í sporum litla fólksins í samfélagi nútímans. Við vitum hvernig þeim líður, við vitum hvað hræðir þau, hvað fyllir þau öryggi og hvað gleður þau. Við vitum líka hvers þau óska og vona. Gleymum því ekki þegar við eigum í samskiptum við litla fólkið í samfélaginu okkar í dag.

Við munum öll að dýrmætasta tilfinningin sem Litlu-við fundum fyrir, innst í hjarta okkar, var fullvissan um að vera elskuð nákvæmlega eins og við erum.

Nú erum við fólkið sem horfum í augu barna, ungmenna og allra annarra og segjum þeim að tilvera þeirra skiptir máli, þau eru elskuð og við ætlum vel fyrir þeim að sjá.

 

 

 

Fullorðnir vs. ungmenni

 

2. apríl 2016 

 

„Já gvuð líður þér svona illa, æ en leiðinlegt. Mér hefur oft liðið svona, og það var miklu verra en hjá þér og sjáðu bara hvað ég er í góðum málum í dag!”

Þetta las ég í gegnum umræður fullorðna fólksins á opnum fundi SAMFOKs um innritun 10. bekkinga í framhaldsskóla fimmtudagskvöldið 31. mars sl. Ég var svo lánsöm að fá að fylgja dóttur minni og tveimur skólasystkinum hennar á fundinn, en þau voru frummælendur ásamt tveimur skólameisturum framhaldsskóla og sérfræðingi Menntamálastofnunar. Ungmennin hófu fundinn með vel undirbúnu og skeleggu erindi um upplifun þeirra af þeim breytingum sem stjórnendur skólamála hérlendis ákváðu að einhenda sér í nú í vetur. Meginþungi breytinganna felst í að yfirfæra einkunnakvarða 10. bekkinga frá talnakvarðanum 0-10 í bókstafakvarða A-D. Ég og við sem höfum þegar gengið í gegnum unglingsárin munum flest hvernig okkur leið síðasta árið okkar í grunnskóla. Sjálf ólst ég upp úti á landi og skiptin frá grunnskóla yfir í framhaldsskóla mörkuðu mikil og afdrifarík þáttaskil í mínu lífi. Ég komst inn í þann skóla sem ég valdi eftir að hafa lagt mig mikið fram til að ná góðum samræmdum prófum. Ég var algjörlega grunlaus á þeim árum um snobb tengt skólum og fannst Fjölbrautaskólinn í Breiðholti mest töff skóli sem ég gat ímyndað mér. Og hann stóðst þær væntingar.

Þá sem nú tekst unga fólkið á við þessar umbreytingar í lífi sínu með stuðningi fullorðna fólksins sem bæði styður þau í gegnum þær og setur þeim ramma og reglur um hvernig yfirfærslan úr grunnskóla í framhaldsskóla eigi að eiga sér stað. En eitt hefur þó breyst mikið frá árinu 1988 þegar ég fór í framhaldsskóla og til ársins 2016 þegar dóttir mín er í sömu sporum. Ungmenni dagsins í dag standa með sér, láta í sér heyra og setja fram rök fyrir skoðunum sínum sem byggja á ígrundaðri þekkingu.

Þar sem ég sat í sæti mínu á fundi SAMFOKs og hlýddi á ungmennin skýra frá niðurstöðum rannsóknar sem þau lögðu fyrir jafnaldra sína og varðaði skoðun þeirra og líðan gagnvart þeim breytingum sem verið er að gera á einkunnakvarða, þá fylltist ég stolti. Stolti og von um að framtíð þessa samfélags væri sannarlega björt því ungmennin sem erfa munu landið setja viðhorf sín fram eftir að hafa hlustað á aðra.

En um leið og fullorðna fólkið hóf upp raust sína sannfærðist ég um að hérlendis situr enn fólk við stjórnvölinn – hvort sem er innan skóla eða á hinu háa Alþingi – sem dettur ekki í hug eitt andartak að hlusta á hagsmuni annarra en sinna eigin. Hrokinn sem ungmennunum var sýndur var þvílíkur. Jú, jú, krúttlegt að heyra í þeim, smart að þau kunni að gera svona kökurit og sætar glærur, en látum alveg vera að það sem þau voru meðal annars að segja okkur fullorðna fólkinu var að tilhugsunin um að fara í framhaldsskóla vekur kvíða meðal 85% nemenda í 10. bekk. Áttatíu og fimm prósent!

Og svo komu hrokafullar yfirlýsingar um að þetta væri bara stormur í vatnsglasi, þetta skipti ekki nokkru máli og þau ættu ekkert að vera að velta þessu fyrir sér. Þessar breytingar verða gerðar, krökkunum var gert það fullljóst.

Breytingar geta hæglega verið til góða og eru það oft. En þá skiptir máli hvernig þær eru framkvæmdar. Lykilatriði er að hlusta á þá sem breytingarnar snerta, heyra raunverulega raddir þeirra og taka tillit til þeirra þegar teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir.

En við breytingaferli á einkunnakvörðum nemenda sem eru að fara í framhaldsskóla átti sér ekkert samtal stað við nemendur. Ekkert. Fjárhagslegir hagsmundir og pólítísk skrautfjöður var við stjórnvölinn. Ekki í fyrsta skipti og því miður heldur ekki í það síðasta.

En þar sem ég hef trú á fólki og ekki síst ungu fólki, þá er ég viss um að þetta sé að breytast. Því ef unga kynslóðin missir ekki trúna á að réttlætið geti náð fram að ganga, þá verður gott að búa á Íslandi. Til að svo megi vera verðum við fullorðna fólkið að vera þeim fyrirmynd um að taka á öllum málum með góðri yfirsýn og með því að hlusta á aðra.

bottom of page