top of page

Við erum öll merkileg

 

30. nóvember 2015

 

Dagurinn í dag markar upphafið að biðinni að hátíð jólanna. Þegar við bæði meðvitað og ómeðvitað stöndum frammi fyrir því að skilgreina fyrir okkur hvað það er sem við teljum skipta okkur mestu máli í lífinu.

Hvers konar fjársjóð við viljum safna hér á jörð og skilja eftir okkur. 

Og ef það hefur einhvern tímann verið mikilvægt að gefa sér tíma til að horfast í augu við sjálfan sig og sitt líf þá er það einmitt núna. Ástæðan er sú að allt undangengið ár hefur í mínum huga einkennst af sterkum skoðanaskiptum og byltingum í samfélaginu og á samfélagsmiðlum, og fréttum af óskiljanlegum óhugnaði í löndum fjarri okkur. En sem verða svo nálægt okkur vegna samfélagsmiðlanna og tækninnar.

En við þurfum ekki að leita langt til að verða vitni að óskiljanlegum aðstæðum sem enginn ætti að búa við. Við þær aðstæður býr kannski konan sem er á undan okkur í kassanum í bónus, einstæðingurinn sem sat á bekk á Laugaveginum í gær eða niðurlúta barnið á leið í skólann sem við mætum á hverjum degi þegar við förum í vinnuna.

Hvert og eitt okkar er nefnilega að glíma við allskonar verkefni og aðstæður sem oftar en ekki við hin höfum ekki hugmynd um. Einmitt þess vegna verðum við að koma fram við allar manneskjur af virðingu vegna þess að allar manneskjur eru merkilegar. Eru hér samferða okkur í lífinu af ástæðu.

En það er þó ein sérstök manneskja sem við þurfum að sýna sérstaka aðgát og virðingu ef við ætlum að vera fær um að sýna öðrum virðingu. Það erum við sjálf.

Ég ætla að segja ykkur sögu.

Fyrir rúmlega mánuði síðan gekk kona út af fundi. Þetta var ekkert öðruvísi dagur en aðrir; vinna fyrir hádegi og einn fundur, ljúka við og skila einu verkefni af sér og hendast á þennan umrædda fund og skutla svo yngsta barninu á æfingu. En það gerðist eitthvað þegar konan gekk út af fundinum. Hún fann hvernig allt í einu, þarna úti á miðri fjölfarinni götu, stór kökkur tók að myndast í hálsinum og svo bara byrjuðu tárin að renna. Algjörlega stjórnlaust. Hún leit niður líkt og barnið, svo ekki sæist hvernig henni leið. Gekk að bílnum og settist inn. Þar sat hún, gjörsamlega buguð og komin með ekka. Og skildi nákvæmlega ekkert í þessu. Hún hringdi í manninn sinn, sína helstu stoð í lífinu, sem bað hana um að koma alveg undir eins til sín. Sem hún gerði. Og sat svo bara og grét. Eftir smástund fór hún að geta tjáð líðan sína:

Henni fannst hún vera búin. Til anda, sálar og líkama. Og þegar hún leit yfir farinn veg áttaði hún sig á því að hún hafði ekki annast um sjálfa sig – hún hafði ekki sýnt sjálfri sér þá virðingu að gefa sér tíma til að bara vera til. Hraði nútímasamfélags, krefjandi en um leið gefandi verkefni – bara of mikið af þeim og í allt of langan tíma – og ómanneskjulegar kröfur hennar til sjálfrar sín, höfðu nú tekið sinn toll. Nú þurfti að breyta um stefnu.

Þessi kona er sú sem skrifar þessi orð.

Þessi kona vill deila með ykkur þessari reynslu vegna þess að ég veit að ég er ekki eina manneskjan sem hef upplifað slíkt.

Og kannski aðallega vegna þess að aðalatriðið er hvernig við vinnum úr þessu.

Og þar höfum við eitt lykilorð sem er ábyrgð.

Að við berum ábyrgð á okkur sjálfum svo við getum borið ábyrgð á öðrum.

Við berum ábyrgð á að hlusta á tilfinningar okkar, líðan og gera okkur grein fyrir viðhorfum okkar. Það gerir það enginn annar fyrir okkur.

 

Það er á öllum tímum mikilvægt að við berum ábyrgð á okkur sjálfum. Ekki síst ef við eigum eða umgöngumst börn.

Fyrir rétt rúmum 23 árum auðnuðust mér þau forréttindi að verða móðir í fyrsta sinn. Vernd, ábyrgð, þakklæti og kærleikur. Þessi fjögur orð lýsa best tilfinningunni sem ég fann til þar sem ég sat með litla drenginn minn í fanginu á spítalanum. Það lýsir sérstöðu tilfinningarinnar sem hver móðir finnur gagnvart barninu sínu eða börnum, að hún á eina sérstaka tilfinningu alveg út af fyrir sig; móðurtilfinninguna, sem er allt í senn yfirþyrmandi, kraftmikil, brothætt og mjúk. Hún er umvefjandi í sjálfri sér og öllum tilfinningum æðri.

Fyrir rúmum mánuði fannst mér ég allra helst hafa brugðist mikilvægasta hlutverki lífs míns, sem er að ala upp og annast um son minn og systur hans fjórar. Hvaða fyrirmynd er ég eiginlega fyrir þau?

Við vitum öll að börn læra mest af því sem þau sjá okkur gera, en ekki af því sem við segjum þeim. Rétt eins og aðrir umönnunaraðilar barna hef ég lagt mig fram um að ala þau upp eins vel og ég get. Besti uppeldisleiðarvísirinn, sem ég hef reynt að fylgja, er að ég sjái fyrir mér hvernig manneskjur ég vil að þau verði. Ef ég vil að þau sýni öðrum virðingu, þá kem ég fram við þau af virðingu. Ef ég vil að þau verði umhyggjusöm, þá annast ég þau af umhyggju. Ef ég vil að þau komi vel fram við aðra, þá kem ég vel fram við þau. Börnin okkar, öll börnin sem búa í þessu samfélagi, læra á lífið af samskiptum sínum við okkur og af samskiptum okkar við aðra. Og eins og heimspekingurinn Immanuel Kant sagði, þá má rekja allt gott í veröldinni til góðs uppeldis.

Við getum spurt okkur þessara spurninga:

Hvernig tölum við um annað fólk heima hjá okkur?

Hvernig tölum við um skóla barnanna okkar?

Hvernig tölum við um ráðamenn þjóðarinnar?

Hvernig tölum við um allt sem gerist í veröldinni?

Hvernig komum við fram á samfélagsmiðlum? Hvernig athugasemdir setjum við inn á facebook? Erum við þar sú fyrirmynd sem við viljum vera fyrir börnin okkar?

Og tölum við yfirleitt við börnin okkar? Hlustum við á þau?

Erum við kannski alltaf í símanum eða í tölvunni? Og erum þar af leiðandi andlega fjarverandi.

Trúið mér, börnin okkar eru lítil í svo stuttan tíma. Mér finnst til dæmis sem það hafi verið í gær þegar yngsta dóttir mín var fjögurra ára gömul og fékk kartöflu í skóinn. Sem var vegna þess að hún borðaði alla súkkulaðijólasveinanna sem systkini hennar fengu, meðan þau voru í  skólanum. Þessi uppátækjasama systir er nú orðin 14 ára og hætt að fá í skóinn. Þessi ár þegar börnin okkar eru börn, eru ekki mörg en óskaplega mikilvæg. Því þá læra börnin okkar hvernig þau eiga vera sem fullorðin. Við kennum þeim það.

 

Nú nálgast jólin enn á ný og við hlökkum til allra föstu hefðanna sem þau bera með sér. Aðventan ber með sér von, gleði og fyrirheit um að allt fari vel.

Aðventan ber líka með sér skilaboð um allt sem við þurfum að gera svo jólin komi nú örugglega, um allt sem þarf að kaupa og þrífa. Senda og sækja.

En það eru bara skilaboð þeirra sem vilja selja okkur þá hugmynd að inntak jólanna sé annað en það er. Í mínum huga eru jólin tími þakklætis. Við þökkum fyrir að vera til og fyrir að fá að faðma og horfast í augu við ástvini okkar um leið og við þökkum fyrir tímann sem við fengum með þeim ástvinum sem eru horfnir okkur.

Hvorki Ikea, Kringlan, Smáralind, Glerártorg né Laugavegurinn geta komið í staðinn fyrir þá ómetanlegu gjöf sem felst í samskiptum okkar við hvert annað. Það sem fyllir okkur fullvissu um að við skiptum máli og séum merkileg er ekki sú staðreynd að geta keypt sér allt sem hugurinn girnist. Eða að eiga Iphone og JÖR úlpu. Heldur að eiga í góðum samskiptum og að tilheyra öðrum. Tilheyra fjölskyldu, tilheyra samfélagi, vera til og vera séður.

Þetta er ástæðan fyrir því að á veggnum við borðstofuborðið heima hjá mér standa eftirfarandi orð úr Lúkasi, 12. kafla og 34.versi:

Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.

Hvort sem það eru jól, haust, hásumar eða kaldur vetur, þá minna þessi orð mig alltaf á það sem skiptir mig mestu máli. Það sem stendur hjarta mínu næst. Sem er ástæðan fyrir því að ég valdi að setja þennan texta upp á vegg á heimilinu mínu. Því að einmitt þar er fjársjóðurinn minn. Fjölskyldan mín.

Ég verð að hlúa að þessum fjársjóði og annast hann, því þá mun hann blómstra.

Sama á við um okkur öll. Við erum öll hluti af fjölskyldu, sem við þurfum að gefa tíma og annast.

Jólin eru góður tími til þess.

 

Ég er viss um að þegar þið, sem eruð fullorðin, hugsið tilbaka til ykkar bernskujóla, þá eru það ekki gjafirnar eða stressið í búðunum dagana fyrir jól sem þið munið. Nei, það var örugglega samveran við fólkið okkar.

En rétt eins og ég sagði hér í upphafi, þá vitum við ekki reynslu eða aðstæður þeirra sem við umgöngumst og heldur ekki minningar þeirra. Sum okkar finna aðeins til sorgar þegar þau hugsa til jólanna, eða jafnvel kvíða. Minnumst þess og gefum því hvort öðru þá dýrmætu gjöf að hlusta á og sjá hvert annað. Kærleikurinn er svarið við öllum spurningum sem er erfitt að svara og öllum samskiptum sem er erfitt að takast á við.

Því það skiptir engu máli hvaðan við komum, hver við erum eða hvaða sögu við eigum, við eigum öll okkar stað í litrófi lífsins. Því við erum öll óendanlega merkileg og dýrmæt.

Megi aðventan og jólin vera okkur öllum tími til að knúsast, leika, hlæja, gráta, kyssast og tala.

Ég bið þess að þið megið njóta dýrmætasta fjársjóðsins sem okkur hefur verið gefinn, sem felst í samskiptunum við ástvini okkar því um leið sköpum við hlýjar minningar með fólkinu sem við elskum mest.

Alvöru samskipti

 

2. apríl 2015

 

Fyrir fáum árum fór ég ásamt vinum á veitingastað um páska. Gott ef þetta var ekki skírdagskvöld; margir gestir á staðnum, fullorðnir vinahópar, stórfjölskyldur og minni fjölskyldur og krúttleg pör. Við hlið okkar sat ein af minni fjölskyldunum; maður, kona og tvö börn, sem sátu þar í um þrjár klst. Við vorum eitthvað lengur enda lá okkur margt á hjarta þar sem langt var um liðið síðan við hittumst síðast. Þar sem fjölskyldan sat beinlínis við hlið okkar, gat ég ekki varist því að fylgjast með samskiptum þeirra, sem vöktu athygli mína vegna þess að þau voru nákvæmlega engin. ENGIN.

Börnin áttu í samskiptum við hvort sinn iPad og foreldrarnir við iPhone símana sína. Þegar þau svo fóru, var eins og um þegjandi samkomulag væri að ræða; enginn sagði neitt, allir stóðu upp í einu og þau gengu út með veröldina í samskiptatækjunum sínum.

Snjalltæki eru undratæki. Þau tengja okkur við bókstaflega allan heiminn og gera á margan hátt tilveruna einfaldari.

En þau munu aldrei koma í staðinn fyrir mæðgnasamtalið undir fjögur augu sem þú átt við dóttur þína þegar hún byrjar í fyrsta sinn á blæðingum, kúrið með börnunum þínum á föstudögum eftir að þið hafið gúffað í ykkur pizzu eða samtalið við áttavilltan son þinn sem veit ekki í hvaða framhaldsskóla hann á að fara.

Alveg frá því börnin koma í heiminn erum við að byggja upp sjálfsmyndina þeirra með opnum, hlýjum faðmi og eyrum sem hlusta. Börn og ungmenni hafa óendanlega þörf fyrir raunveruleg og umhyggjusöm samskipti, sem fylla þau þeirri fullvissu að þau séu nákvæmlega nógu góð eins og þau eru. Í kjölfarið eflist sjálfsmyndin þeirra sem gerir þau sterkari og sjálfstæðari gagnvart óendanlega stórum og margþættum netheimi þar sem stundum allt virðist falt fyrir læk <3

 

 

 

Æðruleysi

 

4. febrúar 2015 

 

Í íslenska fjölmenningarsamfélaginu búa tæplega 330 þúsund einstakar manneskjur. Þrátt fyrir allar góðar gjafir landsins og nægt líkamlegt rými fyrir hverja og eina, virðist aftur á móti sem sífellt sé þrengt að okkar andlega rými. Það birtist helst í umræðu um fólk, skoðanir annarra og hegðun, sem einkennist af rörsýn þess sem talar og skorti á æðruleysi. Því um leið og fullorðið fólk fer að endurskilgreina grunngildi samfélagsins, eins og frelsi, virðingu og réttlæti, í þeim tilgangi að aðlaga tilveruna sér í hag, þá fer samfélagið að efast um sjálft sig, tilgang sinn og stefnu. Þó er það einmitt sú staðreynd; að hver finni sig tilheyra samfélagi sem hafi rými fyrir hann eða hana, sem er meginástæða þess að við ílengjumst hér, erum hamingjusöm og njótum þess að vera til. Það væri nefnilega óskandi að við myndum eyða jafnmikilli orku og tíma í að annast um fólkið okkar eins og við eyðum í að aðlaga samfélagið að okkar tilveru og viðhorfum. Dæmi um það er umræðan um meintan tilgang kirkjuheimsókna sem fór eins og eldur í sinu netheima í aðdraganda nýliðanna jóla, þegar ólíklegasta fólk opinberaði skoðanir sínar á verkferli skóla hvað þetta varðar. Og áfram hélt umræðan nú á nýju ári þegar fyrirtækjum var meinað að auka og fegra ímynd sína með því að nota reykvíska grunnskóla sem hentugan gjafaafhendingarstað fyrir lífsnauðsynlegar öryggis- og heilbrigðisvörur. Fólk fór mikinn, talaði og skrifaði talsvert meira en það hlustaði. Hlustaði ekki þegar skólafólkið óskaði eftir vinnufriði til að auka þekkingu og vellíðan nemenda í stað þess að vera opinber vettvangur fyrir markaðssetningu og trúboð. Ég er viss um að það er alltaf hægt að finna nýjar leiðir til að koma góðum gjöfum til þakklátra þiggjenda. En ég get ekki orða bundist yfir því hve hrygg ég er yfir því að allt þetta fólk – almenningur, stjórnmálamenn, flínkir markaðsmenn- og konur, spunameistarar og trúaðir sem trúlausir – skuli opinbera öflugar tilfinningar og sterkar skoðanir á gjöfum og trúboði til varnarlausra nemenda, en þegja þunnu hljóði varðandi líðan og gæði náms þessara sömu barna og ungmenna. Og þar sem ég þarf alltaf hreint að reyna að læra af aðstæðum og samskiptum sem ég upplifi, held ég að í þessu tilviki sé lærdómurinn eftirfarandi: Við, sem erum hér samferða í margþættu samskiptasamfélagi, verðum að taka höndum saman og vera sammála um ákveðin grunngildi sem stuðla fyrst og fremst að vellíðan og bestu námsgæðum, áður en við getum verið sammála um að vera ósammála um þætti sem ekki tengjast líðan og námi beint.

            Við erum og verðum ólík. Ef við viljum hlúa að grunngildum samfélagsins, auka umburðarlyndi og víðsýni og setja okkur þá framtíðarsýn að hér sé bæði líkamlegt sem andlegt rými fyrir allt fólk, er menntun öflugasta vopnið. Því aukin þekking gerir okkur kleift að skilja hvað liggur að baki ólíkum sjónarmiðum og í kjölfarið getum við sett okkur í spor annarra. Að tileinka sér æðruleysi gagnvart aðstæðum sem við getum ekki breytt einfaldar tilveruna umtalsvert og það væri hjálplegt að hlusta meira en við tölum. Þá gætum við sannarlega öðlast betri skilning á aðstæðum, viðhorfum og ákvörðunum annarra.

bottom of page