top of page

Þannig týnist tíminn

 

 

3. desember 2014

 

Tíminn hefur verið mér hugleikinn undanfarið. Sennilega vegna þess að oftast finnst mér ég ekki hafa nóg af honum. Þannig kemur til dæmis jólaundirbúningurinn mér gjörsamlega í opna skjöldu því mér finnst raunverulega eins og ég hafi pakkað rauðu jólaeldhúsblúndunum, litla jólatréinu með ljósunum og aðventukransinum niður í gær. Árið hefur þotið áfram án þess að ég tæki eftir því; eiginlega eingöngu vegna þess að ég gleymdi að líta í kringum mig, njóta þess að vera og þakka fyrir tímann. Ég er samt viss um að ef ég gef mér tíma til að rýna í baksýnisspegilinn, þá munu birtast mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum hlýjar minningar, vandræðaleg augnablik, markmið sem náðust og draumar sem rættust. Á þessu ári, sem hefur þotið áfram.

              En undanfarið hef ég verið minnt á að tíminn er ekki endalaus. Og það kemur ekki til af því að ég sé að missa heilsuna eða að eitthvað sé að fara að eiga sér stað sem gæti mögulega kollvarpað því góða og hamingjuríka lífi sem ég lifi núna. Nei, ástæðan er sú að ég óttast að mín kynslóð – ég þar á meðal – sé að sólunda þeim tækifærum og tíma sem okkur er gefinn núna, til að annast um samferðafólk okkar eins vel og okkur er unnt. Erum við að hrósa fyrir það sem vel er gert? Erum við að hjálpa fólki til sjálfshjálpar? Erum við að hlusta með hjartanu á fólk?

              Ég veit ekki – frekar en nokkur annar – hvenær að því kemur að lífið verður ekki eins og það er núna. Því ef það er eitthvað sem er ófyrirsjáanlegt í lífinu, þá er það lífið sjálft. En ég veit að tíminn getur afar auðveldlega týnst og einmitt þegar við þurfum mest á honum að halda, þá finnum við hann hvergi. Þess vegna skulum við nýta tímann vel. Við vitum ekki hvenær sá dagur kemur sem verður okkar síðasti. Ég óska þess að við munum þá geta litið tilbaka full þakklætis fyrir tímann sem okkur var gefinn. 

 

 

 

 

Gleði gefur lífinu tilgang

 

15. nóvember 2014

 

Ég vil byrja þennan pistil á að benda ykkur á grein Margrétar Pálu Ólafsdóttur í Fréttatímanum þann 14. nóvember 2014, sem má lesa hér: http://www.frettatiminn.is/vidhorf/er_eldividurinn_othrjotandi/ . Margrét bendir á að birting eineltis sé niðurlæging, sem elur af sér líf í ótta. Hún skrifar að eineltið taki gleðina af lífi, sem sé alvarlegur glæpur í ljósi þess að það sé gleðin sem næri sjálfstraust og sjálfstrú gagnvart viðfangsefnum tilverunnar og að gleðin leiði af sér áhuga, bjartsýni og tiltrú. Í niðurlagi pistilsins bendir Margrét því miður réttilega á að það erum við, fullorðna fólkið í þessu ágæta samfélagi, sem erum afar iðin við að kenna börnunum okkar hvernig eigi að eiga í niðurlægjandi samskiptum. Það eru nefnilega ekki börnin okkar sem missa sig á facebook, sem fara offari á athugasemdakerfum netmiðlanna eða sem gera lítið úr þeim sem stýra þessu landi. Nei. Það erum við. Fullorðna fólkið sem erum fyrirmyndir barnanna okkar um það hvernig eigi að vera sem fullorðin manneskja. Við erum alltaf jafnmiður okkar yfir því að heyra um alvarlegar afleiðingar eineltis sem ung börn upplifa. Við tölum um það, finnum til með þolendunum, foreldrum þeirra og aðstandendum en erum um leið dáldið fegin því að þetta er ekki okkar barn. Það sé ekki okkar barn sem verði fyrir eineltinu eða beiti því. Eða hvað? Getum við verið svo viss?

Veltum aðeins fyrir okkur hvernig við komum fram við samferðafólk okkar:

Gæti mögulega verið að börnin mín séu að læra af mér að það sé bara allt í lagi að segja eða skrifa niðurlægjandi orð um eða við aðra?

Getur verið að börnin mín séu að læra af mér að það sé allt í lagi að opinbera neikvæðar og fordómafullar skoðanir gagnvart náunganum sem nákvæmlega ekkert hefur gert af sér annað en að vera til?

Getur verið að börnin mín séu að læra af mér að það séu ákveðnir aðilar sem séu merkilegri en aðrir og þar af leiðandi ákveðnir aðilar sem eru ómerkilegri?

Getur verið að börnin mín séu að læra af mér að það sé bara allt í lagi að útiloka suma einstaklinga frá þátttöku í samfélaginu, eingöngu vegna þess að þeir séu ekki í réttu fötunum, vinni ekki réttu störfin, eigi ekki réttu vinina og sæki ekki réttu staðina?

 

Það eru nefnilega VIÐ – hinir fullorðnu – sem erum að kenna börnunum okkar þessi eineltissamskipti. Þau finna þetta ekki upp hjá sjálfum sér. Börn vilja hafa gaman, leika við alla, búa til skemmtilegan ímyndarheim, heyra sögur og búa til hlýjar minningar. Börn elska gleðina og gleðin elskar börn. Og líkt og Margrét Pála bendir á, er það gleðin sem vekur áhuga barna á lífinu, trú á hið góða og trú á að lífið fari vel. En það er eineltið og niðurlægingin sem eineltið hefur í för með sér, sem kaffærir gleðina og þá um leið áhuga barnanna á lífinu og sem fær þau til efast um að lífið fari vel.

 

Í ljósi þess að lífið er núna og að við höfum öll – ég endurtek: ÖLL – tækifæri til að gera samfélagið okkar betra og gleðiríkara, þá bið ég þig um að velta aðeins fyrir þér hvernig þú talar um náunga þinn, hvað þú skrifar og hvernig þú kemur fram. Veltu fyrir þér hvort það sem þú leggur til samfélagsins með framkomu þinni, orðum og skrifum verði til þess að auka gleðina innra með sjálfri eða sjálfum þér. Því ef svo er, þá ertu líka að leggja inn í gleðibankann í samfélaginu okkar. Sem veitir ekki af; gleðibankinn virðist vera heldur rýr nú um stundir, sem birtist í því að samfélag okkar er undirlagt af ótta og tortryggni. Við getum ekki breytt fortíðinni. En með gjörðum okkar í dag getum við sannarlega haft mikil áhrif á framtíðina. Gefum börnunum okkar og samferðafólki gleði. Minnumst þess um leið að það er farsælla að hver einstaklingur í samfélaginu geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og þeim djúpstæðu áhrifum sem breytni hans hefur, í stað þess að ætlast til stórvægilegra, samfélagslegra breytinga.

Komum fram af virðingu gagnvart náunganum og sýnum aðgát í nærveru sálar. Því þá eykst gleðin, sem hrekur óttann, tortryggnina og eineltið á flótta út í hin dýpstu myrkur.

 

 

Ég ber ábyrgð á mér

 

3. nóvember 2014

Ég vakna á morgnana vegna þess að ég ber ábyrgð á því að tilvera mín eigi sér tilgang. Augljósi tilgangurinn felst í vinnunni minni, sem krefst þess að ég sé mætt á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Megintilgangurinn felst þó í því að vera fjölskyldunni minni samferða og sjá til þess að börnin mín eigi kost á að upplifa hamingju og tilgang í lífi sínu. Það er mitt stóra og bæði mest gefandi og erfiðasta verkefni. Þar er ég sjálf börnunum mínum besti kennarinn; að ég sé sjálf með skýr markmið og upplifi sjálf að lífið mitt hafi tilgang. En það er nú bara þannig að það koma dagar og jafnvel tímabil sem eru þannig að ég skil hreinlega ekkert í þessari tilveru. Svona tímabil þar sem ég bara einhvern veginn dröslast áfram, ekki alveg viss um hvert ég sé að fara, hvernig ég ætli að fara þangað, af hverju og til hvers.

Það er samt nauðsynlegt að upplifa þannig tímabil, í það minnsta ef þau verða til þess að mér beri gæfa til að horfast í augu við sjálfa mig og spyrja mig þessara spurninga: Hvert er ég að fara, hvernig ætla ég að fara þangað, af hverju og til hvers. Vegna þess að lífið er raunverulega ótrúlega stutt. Og ekki nóg með það; við vitum nákvæmlega ekkert um hve langan tíma við höfum. Það er því okkar ábyrgð að lifa þannig að við getum litið tilbaka og þakkað fyrir lífið, fyrir góðu augnablikin, fyrir erfiðu augnablikin, fyrir döpru augnablikin og fyrir öll dýrmætu augnablikin. Þessi örlitlu augnablik sem eiga sér stað á hverjum einasta degi og sem umbreyta lífum, fá okkur til að sjá þekktar aðstæður sem nýjar og gefa lífinu nýjan tilgang. Það gerast nefnilega kraftaverk þegar við drögum okkur í hlé, hlustum á okkur sjálf og horfum á líf okkar úr hæfilegri fjarlægð. Þá getum við tekið ákvarðanir, sett okkur markmið og fundið lífi okkar tilgang. Það er þó afar auðvelt að gleyma okkur einmitt mitt í erli dagsins, í kapphlaupinu við tímann og öll markmiðin sem samfélagið hefur innprentað inn í okkur að uppfylla. Samfélagið okkar, sem virðist vera sjálft með svo óljós markmið og óljósan tilgang að við, samfélagsþegnarnir, vitum of oft ekki hvort við erum að koma eða fara. Þess vegna erum við óörugg og erum hætt að treysta því að þeir sem stjórna séu raunverulega að gera sitt besta.

En einmitt af því að lífið er stutt og einmitt af því að samfélagið okkar hefur sífellt óskilgreindari markmið, þá skulum við nú horfa inná við, hlusta á okkur sjálf og finna lífi okkar tilgang. Við getum nefnilega ekki breytt öðrum en okkur sjálfum og það gerum við með því að bera ábyrgð á sjálfum okkur.

Ef við viljum ala upp ábyrga samfélagsþegna verðum við að vera ábyrgar fyrirmyndir.

 

 

 

Skýr skilaboð: “Ekkert helvítis rugl”

 

3. júlí 2014

Framundan er hin árlega tónlistarhátíð Eistnaflug á Neskaupsstað. Hátíðin hefur skapað sér sess sem einn af eftirsóttustu tónlistarviðburðum ársins. Í upphafi tónlistarveislunnar sendir framkvæmdastjóri og stofnandi hátíðarinnar Stefán Magnússon hátíðargestum skýr skilaboð, sem hafa  þau áhrif að annir lögreglu eru í sögulegu lágmarki miðað við aðrar hátíðir af svipaðri stærðargráðu: Gestir koma fram við hver annan af virðingu, bera virðingu fyrir eigum annarra og beita ekki ofbeldi. Skilaboð Stefáns eru markviss og hnitmiðuð:

“Ég hef frá degi eitt sagt við gesti Eistnaflugs að hugsa vel um vini sína, skemmta sér fallega og ekkert helvítis rugl. Þetta segi ég á hverju ári eins oft og ég get ... Svo er það bara þannig að allir hjálpast að við að láta þetta ganga upp bæði hljómsveitir og gestir. Ef það stefnir í vitleysu þá grípa menn inn í og einfaldlega segja að það er bannað að vera fáviti á Eistnaflugi eða bannað að vera með vesen á Eistnaflugi. Stór hluti gestanna kemur aftur og aftur og þessi hópur hjálpar mér að koma skilaboðunum áfram og kennir nýju gestunum. Svona rúllar þetta.” (Stefán Magnússon, 4. september 2013).

Það er merkilegt til þess að vita að sá hópur sem sækir hátíðina, sem sumum gæti þótt vera heldur óárennilegur, skuli sameinast allir sem einn um að láta sig aðra varða og koma fram af virðingu, tillitssemi og umhyggju. Mín skoðun er sú að leiðtogi hópsins; framkvæmdastjóri hátíðarinnar, beri ábyrgðina. Í krafti leiðtogavaldsins sendir Stefán skýr skilaboð sem hann gefur engan afslátt af. Einfalt mál.

Samfélag sem byggir á virðingu og umhyggju, samþykkir ekki ofbeldi. Leiðtogar sem senda út þau skýru skilaboð að ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist sé ekki samþykkt, stýra góðu samfélagi. Margoft hefur verið bent á að ofbeldi hefur alvarlegar afleiðingar á bæði þann sem verður fyrir því, aðstandendur og samfélagið allt. Hvort sem um er að ræða einelti, skeytingarleysi, ofsóknir, niðurlægingu, baktal, nauðgun eða barsmíðar. Sá eða sú sem fyrir ofbeldinu verður er ævina á enda að stríða við afleiðingar þess og það getur jafnvel leitt til dauða. Erfiðast er að græða sálarsárin.

Við eigum ekki að horfa aðgerðalaus á þegar ofbeldi er beitt. Við eigum að láta okkur aðra varða af því að við viljum byggja gott samfélag. Samfélag, þar sem samfélagsleg ábyrgð er ekki aðeins heiti á deild fjármálafyrirtækis sem glímir við timburmenn góðærisins, heldur gildi sem samfélagið allt tileinkar sér. En til að breyta samfélagi þarf að byrja á sjálfum sér. Uppalendur, sem eiga í góðum samskiptum við hvert annað, sýna börnum sína skilyrðislausa umhyggju og senda þeim skýr skilaboð um að ofbeldi er bannað, leggja grunninn að myndugum einstaklingum.

Leiðtogar samfélags, sem eiga í góðum samskiptum og líða ekki ofbeldi, skapa gott samfélag. En skilaboðin þurfa að vera skýr eins og á Eistnaflugi: Við hugsum vel um hvort annað, komum vel fram og það er bannað að vera fáviti.

Við vitum mætavel hve alvarlegar afleiðingar ofbeldi hefur á þann sem fyrir því verður. Högum okkur þá þannig. Hvar sem við erum og hvaða hlutverki sem við gegnum: Sendum skýr skilaboð í krafti valds okkar sem leiðtoga. Hvort sem við erum leiðtogar á eigin heimili, stjórnendur og yfirmenn á vinnustað eða ráðamenn þjóðarinnar. Það er enginn undanskilinn:  Skólastjórar, framkvæmdastjórar, verkstjórar, bæjarstjórar, forstjórar, ráðherrar, feður, mæður, borgarstjóri, forseti. Verum leiðtogar sem sköpum samfélag þar sem allir eru merkilegir.

Ekkert helvítis rugl – verum góð.  

 

 

 

Kæru fyrirmyndir barna og ungmenna á Íslandi

 

26. febrúar 2014

 

Hér á okkar fallega landi býr gott fólk. Fólk, sem lætur sig aðra varða og sem leggur sig fram um að koma fram við allar manneskjur af virðingu. Þó hafa undanfarna daga og vikur, komið fram of margar uppákomur sem gefa til kynna að það sé ástæða til að minna okkur, sem erum fyrirmyndir fyrir framtíðarstjórnendur landsins okkar, á ábyrgð okkar.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Æðsta vald landsins okkar er á herðum Alþingis Íslendinga þar sem hafa átt sér stað samskipti, sem við viljum ekki að börnin okkar hafi eftir. Þess vegna er það ábyrgð okkar, uppalenda og forráðafólks að taka stöðu okkar. Kenna þeim, að til að skapa gott samfélag þurfum við að hafa í heiðri þrjár reglur:

  1. Við erum sammála um að það er í lagi að vera ósammála

  2. Við sýnum auðmýkt: leggjum okkur fram um víðsýni svo við getum sett okkur í spor annarra

  3. Okkur greinir á, en við ætlum að komast að sameiginlegri niðurstöðu

Til að þetta sé mögulegt þurfum við að hlusta, hlusta, hlusta. Hlusta á þarfir samfélagsins og hlusta á okkur sjálf og samferðafólk okkar. Við gerum þetta með því að sýna ungmennunum að samskipti sem byggja á virðingu, hluttekningu, umhyggju, trúnaði og einlægni leiða af sér gott og réttlátt samfélag. Og við byrjum á okkur sjálfum, við byrjum heima. Við vöndum okkur, gefum okkur sjálfum og fólkinu okkar tíma og rými til að vera til, hlusta og tjá sig.

Við getum ekki breytt öðrum. Við getum ekki tekið aftur allt sem hefur verið sagt og gert. En við getum byrjað á okkur sjálfum ef við viljum samfélag sem eflir fólk, samfélag sem færir fólki trú á eigin getu og samfélag sem hlustar.

Byrjum núna.

bottom of page