top of page

Verum okkur til sóma

8. nóvember 2013

 

Ég ber ábyrgð á sex börnum. Sum þeirra eru reyndar ekki lengur börn, heldur orðnir fullorðnir einstaklingar. Ég held þó að hversu gömul sem þau verða muni ég alltaf, alla þeirra og mína ævi, bera þá von í brjósti að þau verði hamingjusöm og hafi trú á eigin getu. En þó að ég leggi mig fram um að kenna þeim að setja sig í spor annarra, vera kurteis og koma fram af virðingu, er ekki þar með sagt að þau muni aldrei mæta  niðurlægjandi framkomu eða eiga í erfiðum samskiptum. Ég ber þó meginábyrgðina á því að kenna þeim góð samskipti. Með því að fylgjast með minni hegðun – því sem ég geri, ekki því sem ég segist ætla að gera - læra þau mest. Mínar gjörðir eru fyrirmynd fyrir þeirra gjörðir.  Og ekki aðeins þeirra, heldur gjörðir allra barna og fullorðinna sem ég mæti. Því hvernig við tölum um annað fólk og hvernig við komum fram við annað fólk hefur áhrif á framkomu og orðfæri samferðafólks okkar. Þar ber hver ábyrgð á sjálfum sér. Við berum ábyrgð á því að velja að tileinka okkur samábyrgð og viðhorf sem byggja á skilningi, virðingu og samhygð. Við getum valið að baktala ekki, leita eftir hinu góða í fólki og efla þekkingu okkar á fólki sem er okkur framandi, frekar en að ala á fordómum.

Dagur eineltis er í dag, 8. nóvember. Það er ekki að ástæðulausu sem einn dagur á ári er helgaður einelti. Einelti er veruleiki allt of margra einstaklinga á Íslandi; barna, ungmenna og fullorðinna og hefur verið rannsakað á víðtækan hátt undanfarin ár. Þar hefur meðal annars komið fram að 8-10% fullorðinna einstaklinga á vinnumarkaði á Íslandi hafi orðið fyrir einelti. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að það dregur úr einelti meðal barna með hækkandi aldri; fer frá því að vera um 12% meðal barna á miðstigi grunnskóla niður í um 4% meðal ungmenna á unglingastigi (Ársæll M. Arnarson og Þóroddur Bjarnason, 2009). Hvort sem um er að ræða einelti meðal barna, unglinga eða fullorðinna geta afleiðingarnar verið alvarlegar og setja jafnvel mark sitt varanlega á lífsgæði, hamingju og sjálfsmynd þolanda.

Einelti hefur verið skilgreint sem athöfn eða hegðun sem er til þess fallin niðurlægja, gera lítið úr, móðga særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan. Einelti er endurtekið áreiti gagnvart einstaklingi sem á erfitt með að verjast því þar sem sterkari aðilinn níðist á þeim sem er líkamlega og/eða félagslega veikari. Eineltisgerandi misbeitir valdi gegn eineltisþolanda. Þegar einstaklingur í valdastöðu misbeitir valdi sínu, verða til vond og óheilbrigð samskipti. Það getur haft alvarlegar afleiðingar þegar sá aðili er fullorðin fyrirmynd fyrir samferðafólk sitt; fullorðna, börn og unglinga. Því hann leggur línurnar; setur fram óskráðar og skráðar samskiptareglur sem tíðkast. Gleymum ekki að einelti er ofbeldi.

Ábyrgðin er því okkar, hinna fullorðnu. Foreldrar eru í valdastöðu gagnvart börnum sínum og kenna þeim með gjörðum sínum hvernig á að vera, koma fram og haga sér sem fullorðin manneskja. Stjórnendur eru í valdastöðu gagnvart undirmönnum sínum og leggja þeim línur um hvernig samskipti eru samþykkt og viðhöfð á vinnustaðnum. Einstaklingar sem eru leiðtogar í samfélagi; borgarstjóri, bæjarstjóri og forseti gefa til kynna innræti sitt og gildi með framkomu sinni og hegðun gagnvart sínum samfélagsþegnum.

Þess vegna berum við ábyrgðina, því við erum fyrirmyndirnar. Tökum ábyrgð á okkur sjálfum og tileinkum okkur samskipti sem byggja á skilningi, virðingu og samhygð. Verum okkur til sóma.

 

Ársæll Arnarsson og Þóroddur Bjarnason. (2009). Einelti og samskipti við fjölskyldu og vini meðal 6., 8. og 10. bekkinga. Tímarit um menntarannsóknir, 6, 15–26.

Reglur um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000/2004.

 

Gleði er að tilheyra öðrum

13. maí 2013

 

Það er vor í lofti. Í miðbæ Reykjavíkur iðar allt af lífi. Gestir kaffihúsa sitja úti og njóta veitinga, börn og foreldrar gefa öndunum brauð, ungmenni þeysast um á hjólabrettum og erlendir ferðamenn með stórar myndavélar eru farnir að setja svip sinn á bæinn. Eldri borgarar ganga í hópum í átt að tveimur stórum rútum sem standa fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur. Þau brosa við endurminningum hvors annars um leið og þau bera bæjarferðina í dag saman við bæjarferð fyrir 70 árum sem þau fóru með foreldrum sínum, ömmum og öfum. Svo margt hefur breyst að þessir lífsreyndu einstaklingar geta varla komið því í orð; segja aðeins að tíðarandinn sé allur annar, um leið og þau óska þess að unga fólkið gleymi ekki því sem mestu máli skiptir í tilverunni.

Inni í Ráðhúsinu syngur og spilar æska landsins um það sem mestu máli skiptir: Gleðina. Og þau segja hvað það er sem þeim finnst skipta svona miklu máli þegar þau útskýra hvað orðið „gleði“ merkir í þeirra huga. Þau segja gleðina felast í því að tilheyra öðrum, vera vinur og eiga vin, eiga einhvern að, vera saman, eiga fjölskyldu, þykja vænt um einhvern, treysta, hlæja með einhverjum, vera hamingjusamur og eiga pabba og eiga mömmu. Einn segir gleðina felast í því að vera feðgar.

Börnin okkar vita hvað þau vilja og vita hvers þau þarfnast. Sem eru ekki efnisleg gæði, heldur að búa við öryggið sem felst í þeirri fullvissu að vera elskaður án skilyrða. Að eiga einhvern að sem leiðbeinir þeim, styður þau og kennir þeim á lífið skiptir mestu máli í tilverunni.

Þó tíðarandinn hafi breyst gríðarlega milli áranna 1943 og 2013, er þörfin fyrir að tilheyra, vera elskaður og fyrir að búa við öryggi sú sama. Og sú fullvissa sem felst í því að vita að það eru til einstaklingar sem elska þig án skilyrða og sem vilja ekkert frekar en eiga með þér tíma er það mikilvægasta í lífinu.

 

Hugsaðu um sjálfa/-n þig!

27. mars 2013

 

Hver og einn einstaklingur gegnir mörgum hlutverkum í lífinu. Ég er til dæmis dóttirin, frænkan, vinkonan, samstarfsmaðurinn, skólahjúkrunarfræðingurinn, systirin, eiginkonan, meistaraneminn, hjúkrunarfræðingurinn á Vökunni, nágranninn og mamman. Öll þessi hlutverk krefjast einhvers af mér, en alls ekki þess sama. Ómeðvitað leik ég þessi hlutverk og kem til dæmis öðruvísi fram við mömmu mína en við samstarfsfólk mitt: Í vinnunni er ég hjúkrunarfræðingurinn Aðalbjörg; fagmaðurinn, hugsjónakonan og mannvinurinn. Í samskiptum mínum við mömmu er ég bara Adda. Litla stelpan hennar sem hún veit allt um. Mamma hefur gengið með mér gegnum áföllin mín, sigrana mína, gleðidagana mína og sorgardagana. Í dag er hún besta vinkona mín. Meðal annars vegna þess að hún tók móðurhlutverkið sitt alvarlega.  Hún gerði sér grein fyrir því að það að ala upp barn er mikilvægasta hlutverkið sem okkur er falið. Frá því að ég man eftir mér, hafði hún trú á mér. Jafnvel þó enginn annar hefði það.

Í dag er ég mamma fimm barna og einnar fósturdóttur. Þau eru einstök og ég veit að þau munu komast þangað sem þau ætla sér. Vegna þess að ég hef trú á þeim.

Það var það sem mamma mín kenndi mér. Að hafa trú á börnunum mínum. En til að geta viðurkennt að ég hafi trú á börnunum mínum þarf ég að byrja á sjálfri mér. Ég þarf að byrja á því að hlusta á sjálfa mig og gera mér grein fyrir veikleikum mínum, styrkleikum og ég þarf að búa yfir meðvitund um sjálfa mig. Um leið og ég hvíli sátt í sjálfri mér, get ég gert mér grein fyrir styrkleikum barnanna minna og þess vegna hef ég trú á þeim.

 

Kæru foreldrar og forráðamenn. Hugsið inná við, gerið ykkur grein fyrir styrkleikum ykkar og veikleikum og elskið ykkur sjálf. Þannig gefið þið börnunum ykkar það sem þau þarfnast mest: Trú á sjálfa sig.

bottom of page