top of page

HLUSTUM!

22.október 2012

Um nýliðna helgi fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs. Landsmenn fengu tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um sex ákveðnar tillögur. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi í þá átt að meirihluti landsmanna er því hlynntur að tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Þar sem við búum í lýðræðisþjóðfélagi reiknum við með að tekið verði tillit til niðurstöðunnar; að það verði hlustað á upplýstar ákvarðanir fólksins sem býr á landinu þar sem þessi nýja stjórnarskrá mun leysa 68 ára gamla stjórnarskrá ársins 1944 af hólmi. Eða hvað? Frá því fyrstu tölur komu í ljós síðla laugardagskvöldsins 20. október, hefur átt sér stað umræða í þjóðfélaginu um hvort taka eigi mark á þeim 48.9% landsmanna sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ráðamenn þjóðarinnar hafa tekist á um að þeir sem ákváðu að nýta ekki kosningaréttinn séu annaðhvort fylgjandi tillögunum eða á móti þeim. Það er þó alveg morgunljóst að hvorki ráðamenn né aðrir geta hvorki gefið sér skoðanir fólks, né byggt afdrifaríkar og ábyrgðarmiklar ákvarðanir á óþekktum viðhorfum. Því skal hlusta á niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar og byggja áframhaldandi ákvarðanir um nýja stjórnarskrá á þeim.

 

Rétt eins og ráðamenn þjóðarinnar taka nú tillit til skoðanna samfélagsþegnanna, eigum við hin fullorðnu að hlusta á æskuna sem við berum ábyrgð á – hlusta á börnin og unglingana sem hafa tekið upplýsta ákvörðun um að lýsa yfir skoðun sinni og miðla af reynslu. Ég sat áhrifaríkan morgunverðarfund Náum áttum hópsins miðvikudaginn 17. október sl. Þar steig fram 14 ára stúlka sem lýsti reynslu sinni af því að búa á heimili foreldra sem gerðu sitt besta, en sem var því miður ekki nóg. 11 ára gömul var hún tekin af heimilinu og býr nú hjá eldri bróður sínum. Skilaboð þessarar hugrökku stúlku voru skýr; hlustið á okkur. Þegar fundargestir, sem koma á einn eða annan hátt að velferð barna og ungmenna á Íslandi, spurðu stúlkuna eftir að hún hafði lýst reynslu sinni hvað þau hefðu átt að gera fyrir hana, var svarið einfalt. Þið vissuð öll hvað var í gangi, þið reynduð allt til að hjálpa foreldrum mínum en hvað með mig? Af hverju var ég ekki tekin af heimilinu fyrr þegar þið vissuð hvernig ástandið var? Af hverju hlustuðuð þið ekki á mig? Stúlkan sagði að auðvitað hefði hún fengið hjálp; hún naut þeirrar þjónustu sem velferðar- og félagsþjónustukerfið býður upp á, en það var ekki það sem hún þarfnaðist. Hún þarfnaðist þess að fá að vera barn með öðrum börnum. Að fá að leika sér áhyggjulaus, að geta spilað á spil og verið örugg. Í sama streng tók ung kona sem lýsti á einlægan hátt í þættinum Landanum sunnudaginn 21. október 2012, þeim lífsgæðum sem hún kynntist þegar hún eignaðist fósturfjölskyldu: Hún eignaðist fyrirmyndir og hún eignaðist heimili.

Þó þessar hugrökku ungu konur séu aðeins tvær, gefa þær okkur marktæka innsýn í reynslu, aðstæður og raunveruleika hundruð barna og ungmenna sem standa í sömu sporum á Íslandi á ári hverju. Eigum við ekki að taka mark á þeim – hlusta á þær, rétt eins og ráðamenn hlusta á og eiga að taka mark á skoðunum 48,9%  Íslendinga?

 

Ef við hlustum á börnin og ungmennin okkar, komumst við nefnilega að því að þau eru að biðja okkur um að gæta þess að þau búi við velferð og mannréttindi; að við sjáum til þess að þau búi við öryggi, fái að vera börn, séu viðurkennd og elskuð af myndugum fyrirmyndum. 

 

FYRIRHYGGJA SAMFÉLAGS

Eftir sumar sem verður lengi í minnum haft sökum einmuna veðurblíðu, hefur haustið látið hraustlega á sér kræla með óvæntum veðuruppákomum, sem hafa haft gríðarleg áhrif á tilveru ófárra samferðamanna okkar. Á mínu heimili hefur haustið alltaf verið boðberi nýs upphafs og

haustið 2012 er engin und

​antekning. 16 ára unglingarnir hófu nám í menntaskóla, sú næstyngsta byrjaði í unglingadeild grunnskóla, sú yngsta í komin í elsta bekkinn í barnaskólanum og eiginmaðurinn og ég sjálf byrjuðum í meistaranámi. Auk þess byrjaði ég í nýju starfi og einkasonurinn byrjaði að vinna fulla vinnu og er í fyrsta skipti í 14 ár ekki að byrja í fullu námi að hausti. Fyrir utan þessar breytingar eru tómstundirnar: Ballettæfingar, körfuboltaæfingar, klarinettæfingar, básúnuæfingar, hljómsveitaræfingar og jazzballettæfingar. Til að halda utanum skipulagða tilveru fjölskyldunnar og til að eiga auðveldara með að mæta þörfum önnum kafinna fjölskyldumeðlima, tók ég uppá því fyrir nokkrum árum að búa til á hverju hausti „Dagskrá fjölskyldunnar“. Veitir ekki af. Þannig bregst ég við hverju nýju hausti, hverju nýju upphafi. Dagskráin er staðsett þar sem allir sjá og við hjónin reynum að skipuleggja starfið okkar í kringum þær skyldur sem við berum á heimilinu. Eftir að hafa verið síðastliðin 14 ár með börn í skóla þar sem hvert haust hefur fært mér nýtt upphaf, hef ég lært að mikilvægast sé að sýna fyrirhyggju; vera viðbúin svo þörfum fjölskyldunnar sé mætt. Láta þær ekki koma mér á óvart.

 

En ​erum við sem samfélag viðbúin? Sýnum við fyrirhyggjusemi gagnvart þörfum alls samferðafólks okkar? Á hverju hausti færa fjölmiðlar okkur fréttir af börnum og unglingum sem af ýmsum ástæðum standa höllum fæti í samfélaginu. Þessar fréttir eru að segja okkur að samfélagið geri ekki nóg til að koma til móts við þarfir þeirra. Í því sambandi er vert að hafa í huga að hvernig annast er um varnarlausustu einstaklingana innan samfélags; þeirra á meðal eru börn og unglingar, er vitnisburður um viðurkennd gildi innan þess. Er því ekki kominn tími til að við opnum augun fyrir því að þarfir þeirra munu alltaf vera til staðar? Það munu alltaf vera til börn og unglingar sem standa höllum fæti í samfélaginu. Getum við ekki haldið utanum þessa einstaklinga með því að gera ráð fyrir þeim? Þanni að úrræðin sem þeim standa til boða séu fullnægjandi? Til að það sé hægt þurfum við fyrst og fremst að annast um okkur sjálf svo við séum fær um að annast um samferðafólk okkar. Vera meðvituð um að þó að við berum meginábyrgðina á okkar börnum, er það einnig á ábyrgð hvers og okkar að öll börn í samfélaginu búi við velferð og mannréttindi.​

Því ​getum við, ég og þú, byrjað á byrjuninni og búið okkur til „Dagskrá samfélagsins“, sem felur í sér að gefa okkur tíma til að annast um hvort annað, veita hvert öðru stuðning þegar þörf er á og láta samferðafólkið okkur varða. Ef við viljum búa í samfélagi sem er tilbúið til að mæta þörfum þegna sinna, þurfum við að byrja á að annast um okkur sjálf og gera okkur grein fyrir hvaða gildi við stöndum fyrir sem einstaklingar.

Samfélag okkar þarfnast fyrirhyggjusamra einstaklinga sem standa fyrir og standa vörð um virðingu, umburðarlyndi, nægjusemi, jafnrétti, umhyggju, ábyrgð og hugrekki.

bottom of page